Sport

Auðunn nældi í silfur og setti heimsmet

Kraftlyftingamaðurinn Auðunn Jónsson vann í dag silfurverðlaun í réttstöðulyftu á Evrópumótinu í kraftlyftingum. Hann setti einnig heimsmet í samanlögðu í flokki öldunga.

Í hnébeygju fengum við að sjá keppni aldarinnar þar sem meirihluti tilrauna voru 400+. Auðunn opnaði létt í 375,0 kg, fékk 395,0 ógilt en lét það ekki á sig fá og kláraði 407,5 kg af öryggi í þríðju umferð og setti um leið nýtt Íslandsmet.

Beygjukeppnin endaði svo með því að Carl Yngvar Christensen tók menn í kennslustund og setti nýtt heimsmet með 445,0 kg.

Á bekknum féllu margir úr keppni. Auðunn opnaði létt í 267,5 kg. Hann fékk síðan því miður ógilt 275,0 í annarri tilraun vegna tæknimistaka og endurtók þá þyngd í þriðju tilraun. Kenneth Sandvik, Finnlandi, sigraði ekki óvænt með 327,5 kg.

Í réttstöðu opnaði Auðunn létt með 332,5 kg og bað svo um 357,5 sem gaf lokatöluna 1040,0 og nýtt heimsmet í aldursflokknum.

Auðunn hafði forustu í réttstöðulyftu fyrir síðustu umferð. Hann reyndi við 367,5 sem hefði dugað í gullið, en varð að játa sig sigraðan á síðustu centimetrunum.

Evrópumeistari í flokknum varð Carl Yngvar Christensen sem kom, lyfti og sigraði á sínu fyrsta fullorðinsmóti á nýju heimsmeti samanlagt 1135,0 kg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×