Fótbolti

Lahm: Ég myndi aldrei hegða mér eins og Terry á móti Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arjen Robben; Franck Ribery og Philipp Lahm á góðri stundu í vetur.
Arjen Robben; Franck Ribery og Philipp Lahm á góðri stundu í vetur. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Philipp Lahm, fyrirliði Bayern München, fordæmdi framkomu kollega síns hjá Chelsea á blaðamannafundi fyrir úrslitaleik Meistaradeildarinnar en Bayern mætir Chelsea á Allianz Arena á laugardaginn.

John Terry, fyrirliði Chelsea, missir af úrslitaleiknum eftir að hafa verið rekinn út af í seinni undanúrslitaleik Chelsea og Barcelona fyrir að sparka aftan í Alexis Sanchez, leikmann Barcelona, þegar boltinn var víðsfjarri.

„Myndi ég segja að þetta væri ábyrgðarlaust af honum? Ég læt það nægja að segja að ég myndi aldrei gera svona lagað. Þetta kæmi aldrei fyrir hjá mér og af hverju? Ég sem fyrirliði geri allt fyrir mitt lið. Svona kemur niður mikið á liðinu og ég myndi aldrei leyfa mér slíkt," sagði Philipp Lahm.

„Þetta þarf hann bara að eiga við sjálfur. Okkar einbeiting er á að vinna leikinn og við erum ekki mikið að velta okkur upp úr því hverjir spila með Chelsea og hverjir ekki. Ég tel að við fáum ekkert forskot þótt að fyrirliðinn þeirra sé ekki með. Það vantar leikmenn í báðum liðum og það jafnast því út," sagði Lahm.

Philipp Lahm er borinn og barnfæddur München-maður og það yrði því risastór stund fyrir hann ef hann fær að taka við Meistaradeildarbikarnum á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×