Viðskipti erlent

Bandaríkjamenn óðir í ofurhetjurnar

Úr kvikmyndinni „The Avengers.“
Úr kvikmyndinni „The Avengers.“ mynd/AP
Ofurhetjurnar í „The Avengers" hafa slegið enn eitt metið. Kvikmyndin var frumsýnd í Bandaríkjunum í gær og halaði hún inn 80.5 milljón dollurum eða rúmum 10 milljörðum króna en það er önnur besta opnun kvikmyndasögunnar.

Aðeins ein mynd hefur þénað meira á opnunardegi sínum en það er kvikmyndin „Harry Potter og dauðadjásnin: Hluti II" sem á það met. Töfrapilturinn halaði inn 91.1 milljón dollurum en það samsvarar 11.4 milljörðum króna.

Talið er að „The Avengers" eigi eftir að slá enn fleiri met. Kvikmyndin er nú þegar komin langleiðina með að þéna meira en kvikmyndirnar „The Dark Knight" og The Hunger Games" gerðu en þær eru í öðru og þriðja sæti yfir bestu frumsýningarhelgi allra tíma.

Kvikmyndasumarið þykir afar gott í ár og er „The Avengers" aðeins sögð gefa forsmekkinn á því sem koma skal. Á meðal þeirra stórmynda sem frumsýndar verða í sumar eru „The Amazing Spider-Man," „The Dark Knight Rises" og „Prometheus."

„The Avengers" var frumsýnd í Evrópu um síðustu helgi og sló myndin tíu ára gamalt met hér á landi. Samkvæmt Samfilm nam miðasala á kvikmyndina 17.6 milljónum króna um helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×