Innlent

Geir heitt í hamsi: Dómurinn fáránlegur og sprenghlægilegur

Boði Logason skrifar
Geir ræddi við blaðamenn í Þjóðmenningarhúsinu í dag.
Geir ræddi við blaðamenn í Þjóðmenningarhúsinu í dag. mynd/frikki þór
„Ég er að sjálfsögðu ekki ánægður með þennan dóm," sagði Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra við fréttamenn eftir dómsuppkvaðninguna í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Geir var sakfelldur í einum ákærulið af fjórum og snýr sá liður að því að því að hafa ekki haldið ráðherrafundi um mikilvæg málefni.

Geir var þungur á brún og heitt í hamsi þegar hann ræddi við fréttamenn. „Það er sýknað þegar kemur að öllum efnisatriðum í málinu. Það er sakfellt fyrir eitt smáatriði í þessu, og svo vægilegt er það, að ekki er refsað fyrir það. Þetta smáatriði er formsatriði og formbrot. Sá dómur er fáránlegur, og reyndar er hann meira en það - hann er sprenghlægilegur. Það er verulega merkilegt að níu dómarar í Landsdómi dæmi fyrir slíkt formbrot. Ef ég hef verið sekur um að brjóta stjórnarskránna, hvað þetta varðar, þá hafa allir forsætisráðherrar landsins frá því að Íslendingar fengu fullveldi, gerst sekir um það sama. Ég er sekur fyrir hönd þeirra alla," sagði Geir.

Þá sagði hann að það væri stórfurðulegt að pólitíkin í landinu hefði laumað sér inn í þennan virðulega dómstól. „Ég lýsti því yfir þegar þetta mál var dómtekið, og á fyrri stigum málsins, að ég bæri fullt traust til Landsdóms og reis ekki gegn því trausti. Pólitísk sjónarmið laumuðu sér inn í réttinn, frekar en hrein lögfræðileg atriði."

Geir sendi frá sér yfirlýsingu sem má lesa í viðhengi með þessari frétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×