Fótbolti

Lampard: Sjaldan liðið betur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frank Lampard fagnar með félögum sínum í kvöld.
Frank Lampard fagnar með félögum sínum í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Frank Lampard segir að frammistaða Chelsea í kvöld hafi verið óviðjafnanleg og að tilfinningin eftir leikinn sé ein sú besta sem hann hafi upplifað á ellefu ára ferli sínum hjá Chelsea.

„Mér hefur sjaldan liðið jafn vel klæddur í þessa treyju," sagði Lampard eftir að Chelsea náði 2-2 jafntefli gegn Barcelona í kvöld. Það dugði til að tryggja liðinu sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.

Chelsea lenti 2-0 undir seint í fyrri hálfleik og hafði þar að auki misst fyrirliðann John Terry af velli með rautt spjald. En Ramires minnkaði muninn í uppbótartíma fyrri hálfleiks og þrátt fyrir ótrúlegan sóknarþunga heimamanna skoraði Chelsea eina mark síðari hálfleiks í blálok leiksins.

„Við vorum búnir að mála okkur út í horn. Ég veit að fólk vill sjá fallega knattspyrnu en miðað við að vera manni færri í 50 mínútur eða svo og ná þessum úrslitum var ótrúlegt. Frammistaðan var ótrúleg," sagði Lampard.

„Við vissum að þeir voru líklegir til alls og það var ekki fyrr en að Torres skoraði í lokin að við vissum að við værum komnir áfram. En við vorum fastir fyrir og uppskárum eins og við sáðum."

„Við erum mjög ánægðir. Enginn reiknaði með því að við kæmumst áfram en við erum komnir í úrslitaleikinn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×