Fótbolti

Messi skorar innan sem utan vallar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Argentínski snillingurinn Lionel Messi er að verða pabbi í fyrsta sinn ef marka má twitter-færslu hjá argentínska knattspyrnusambandinu. Messi slær hvert metið á fætur öðru og það virðist allt ganga upp hjá kappanum þessa dagana, innan sem utan vallar.

Argentínska knattspyrnusambandið tilkynnti það á twitter-síðu sinni að Antonella Rucozzo, unnusta Lionel Messi, væri ófrísk en hvorugt þeirra hefur þó viljað staðfesta fréttirnar. Rucozzo er æskuvinkona Leo frá Rosario í Argentínu.

Lionel Messi er á lokasprettinum á frábæru tímabili en hann hefur skorað 63 mörk í 52 leikjum í öllum keppnum og er á góðri leið með að bæta markamet Þjóðverjans Gerd Müller sem skoraði 67 mörk fyrir Bayern München tímabilið 1972-1973.

Þetta verður fyrsta barn Messi en hann verður 25 ára gamall í maí. Hver veit nema að annar Messi verði kominn í lið Barcelona árið 2029 eða um það bil en Lionel Messi var 17 ára og 114 daga þegar hann lék sinn fyrsta opinbera leik með aðalliði Barca.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×