Viðskipti erlent

AGS: 3,5 prósent hagvöxtur í heiminum á árinu - 2,4 prósent á Íslandi

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS.
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur endurskoðað hagvaxtarspá sína fyrir árið í ár, og spáir nú örlítið meiri hagvexti en áður, 3,5 prósent í stað 3,3 prósent fyrr á árinu.

„Aðeins meiri jákvæðni á mörkuðum, og betri fréttir af bandaríska hagkerfinu en áður, skýra þessa breytingu," sagði Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS, í tilkynningu vegna spárinnar.

Reiknað er með meiri hagvexti í Bretlandi en fyrri spá gerði ráð fyrir, eða 0,8 prósent í stað 0,6 áður.

Spá AGS gerir ráð fyrir að efnahagsvandi Grikkja muni dýpka enn frekar, eða að hagkerfið minnki um 1,8 prósent í stað 1,6 prósent í fyrri spá.

Áfram er gert ráð fyrir því að BRIC löndin, Brasilía, Rússland, Inland og Kína, muni standa undir stórum hluta hagvaxtar í heiminum á þessu ári.

Gert er ráð fyrir því að hagvöxtur hér á landi verði 2,4 prósent á þessu ári, og 2,6 prósent á árinu 2013, eins og áður hefur komið fram í umfjöllun sjóðsins um stöðu mála hér á landi.

Eina ríkið í Evrópu sem spáð er að verði með meiri hagvöxt á þessu ári en Ísland er Pólland, en því er spáð að hagvöxtur verði þar 2,6 prósent eftir 4,3 prósent hagvöxt á síðasta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×