Fjármálajöfurinn Warren Buffett tilkynnti í dag að hann hafi greinst með krabbamein í blöðruhálsi. Í tilkynningu sem Buffett sendi hluthöfum í Berkshire Hathaway fjárfestingafyrirtækinu kemur fram að krabbameinið sé á frumstigi.
Buffett, sem er 81 árs gamall, sagði að sjúkdómur væri ekki lífshættulegur og að hann væri í raun við hestaheilsu. Þá sýndu frekari rannsóknir að meinvörp hefðu ekki myndast annars staðar í líkama hans.
Þá mun Buffett gangast undir tveggja mánaða geislameðferð vegna krabbameinsins.
„Mér líður mjög vel," skrifaði Buffett. „Ég hef fulla orku - það er í raun eins og að ekkert sé að mér. Hluthafar í fyrirtækjum mínum verða þeir fyrstu til vita ef heilsu minni hrakar."
„Auðvitað mun það gerast á endanum," bætti Buffett við. „En ég er nokkuð viss um að það eigi ekki eftir að gerast á næstunni."
Buffett, sem er þriðji ríkasti maður veraldar, er heimsfrægur fjárfestir. Þrátt fyrir gífurlegan auð sinn lifir hann einföldu lífi. Fyrirtæki hans, Berkshire Hathaway, var stofnað árið 1944 og hefur síðan þá stækkað gríðarlega.
Fyrir nokkrum árum gaf Buffet 85% eigna sinn til góðgerðamála og hefur hann hvatt aðra auðkýfinga til að gera hið sama.
Viðskipti erlent