Fótbolti

Drogba sá um Evrópumeistarana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Didier Drogba var hetja Chelsea þegar að liðið gerði sér lítið fyrir og vann Evrópumeistara Barcelona, 1-0, í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Drogba skoraði eina mark leiksins undir lok fyrri hálfleiksins og það algerlega gegn gangi leiksins. Barcelona hafði verið miklu sterkari aðilinn í leiknum og fengið betri færi, án þess að nýta þó.

Lionel Messi, af öllum mönnum, tapaði boltanum á miðjunni og Frank Lampard kom boltanum á Ramires á vinstri kantinum. Hann kom boltanum inn í teig þar sem Drogba var mættur og skoraði af stuttu færi.

Drogba hafði annars eytt mestum tíma sínum í fyrri hálfleik í grasinu þar sem hann lá meiddur, að því virtist.

Alexis Sanchez fékk besta færi Barcelona í upphafi leiksins þegar hann vippaði boltanum yfir Petr Cech í markinu en boltinn hafnaði í slánni. Cesc Fabregas átti einnig skot að marki sem var varið af Ashley Cole á marklínunni.

Carles Puyol komst svo nálægt því í lok leiksins að jafna metin fyrir sína menn en Cech varði glæsilega frá honum. Varamaðurinn Pedro átti svo skot í stöng í uppbótartíma og náði Sergio Busquets frákastinu en þrumaði boltanum hátt yfir mark heimamanna.

Sætur sigur Chelsea-manna því staðreynd en liðin eiga eftir að mætast aftur og þá á Nou Camp, heimavelli Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×