Fótbolti

Ramires: Allt Roberto Di Matteo að þakka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ramires.
Ramires. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ramires, miðjumaður Chelsea segir að uppkoma liðsins að undanförnu sé nýja stjóranum Roberto Di Matteo að þakka en hann tók við liðinu þegar André Villas-Boas var rekinn eftir aðeins átta mánuði í starfi.

Chelsea er búið að leika átta leiki undir stjórn Roberto Di Matteo og hefur unnið sex þeirra. Liðið á möguleika á því að komast í undanúrslit Meistaradeildarinnar í kvöld þegar liðið tekur á móti Benfica í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum. Chelsea vann fyrri leikinn 1-0.

„Við fórum augljóslega í gegnum mjög erfitt tímabil en við höfum grætt á stjórabreytingunni. Við höfum fundið sjálfstraustið aftur og berum nú meiri virðingu fyrir okkur sjálfum," sagði Ramires.

„Roberto hefur komið inn með nýjar hugmyndir og hlaðið í okkur sjálfstrausti. Það er erfitt að útskýra nákvæmlega hverju hann hefur breytt en við erum farnir að átta okkur betur á því að við erum með frábært lið með frábærum leikmönnum. Við byggðum strax ofan á sigurinn í fyrsta leiknum hans á móti Birmingham City og höfum síðan styrkst með hverjum leik," sagði Ramires.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×