Fótbolti

Chelsea komst naumlega áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Chelsea er komið áfram í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu eftir 2-1 sigur á Benfica á heimavelli í kvöld. Chelsea vann samanlagt 3-1 sigur og mætir nú Barcelona í undanúrslitunum síðar í mánuðinum.

Það stóð þó tæpt á lokamínútunum því staðan var 1-1 þegar skammt var til leiksloka og Benfica hefði dugað eitt mark til viðbótar til að slá Chelsea úr leik. En þökk sé marki varamannsins Raul Meireles í uppbótartíma náði Chelsea að gulltryggja sæti sitt í undanúrslitum keppninnar.

Frank Lampard skoraði fyrsta mark leiksins á 20. mínútu úr vítaspyrnu. Javi Garcia braut þá á Ashley Cole og Lampard skoraði örugglega.

Undir lok fyrri hálfleiksins fékk svo Maxi Pereira, fyrirliði Benfica, að líta rauða spjaldið fyrir sína aðra áminningu í leiknum. Það var því fátt sem benti til þess að þeim portúgölsku tækist að koma sér aftur inn í leikinn, manni færri.

Benfica lét þó ekki segjast og fékk sín færi í seinni hálfleik. Petr Cech varði glæsilega frá Oscar Cardozo snemma í hálfleiknum en stuttu síðar fékk reyndar Ramires gullið tækifæri til að koma Chelsea tveimur mörkum yfir en brenndi af fyrir opnu marki.

Fernando Torres og Juan Mata komust svo báðir nálægt því að skora fyrir Chelsea en án árangurs þó. Það átti eftir að reynast dýrkeypt því Benfica náði að jafna metin um sex mínútum fyrir leikslok.

Garcia skoraði þá með skalla eftir hornspyrnu en hann nýtti sér slakan varnarleik heimamanna og var dauðafrír á nærstöng.

Benfica sótti nokkuð eftir þetta, þrátt fyrir að hafa verið manni færri, en heimamönnum til mikils léttis náði Mereiles að tryggja sínum mönnum sigurinn með marki úr skyndisókn í uppbótartíma.

Chelsea fær nú það erfiða verkefni að mæta Spánar- og Evrópumeisturum Barcelona í undanúrslitum en leikirnir fara fram dagana 18. og 24. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×