Viðskipti erlent

Tölvuleikir vinsælli en myndbönd í Bretlandi

Úr tölvuleiknum Call of Duty: Modern Warfare 3
Úr tölvuleiknum Call of Duty: Modern Warfare 3 mynd/AP
Afþreyingariðnaðurinn í Bretlandi tók stakkaskiptum á síðasta ári. Sala á tölvuleikjum fór þá fram úr myndbandasölu í fyrsta sinn.

Greint er frá þessu á vef breska ríkisútvarpsins.

Tölvuleikjaiðnaðurinn er nú sá stærsti innan skemmtanaiðnaðarins í Bretlandi. Sala á tölvuleikjum nam alls 1.93 milljörðun punda eða tæpum 390 milljörðum íslenskra króna.

„Þetta er dramatískt augnablik í sögu afþreyingariðnaðarins," sagði Kim Bayley, stjórnandi Electronic Retailers Asssociation (ERA).

Sala á myndefni nam 1.80 milljörðum punda á meðan tónlist halaði inn rúmum milljarði.

Samkvæmt ERA skipta tölvuleikjaframleiðendur með sér 40.2% af afþreyingarbransa Bretlands. Hlutdeild myndbandaiðnaðarins er 37.6%. Tónlist er síðan í þriðja sæti með 22.2%.

Heildarsala á tölvuleikjum, myndböndum og tónlist nam 4.80 milljörðum punda á síðasta ári en það er 3.3% lækkun frá því árið 2010.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×