Viðskipti erlent

Ítalski skatturinn leggur hald á eigur Gaddafi fjölskyldunnar

Skattayfirvöld á Ítalíu hafa lagt hald á allar eigur Muammar Gaddafi fyrrum leiðtoga Líbýu og fjölskyldumeðlima hans sem til voru í landinu.

Í frétt um málið á Bloomberg segir að um sé að ræða verðmæti upp á 1,1 milljarð evra eða um 186 milljarða króna. Það var alþjóðadómstóllinn í Haag sem gaf fyrirskipun um að eigurnar yrðu kyrrsettar.

Meðal þess sem Gaddafi fjölskyldan átti á Ítalíu fyrir utan jarðir voru hlutir í bankanum Unicredit, bílaframleiðandanum Fiat, orkurisanum Eni og Juventus fótboltaliðinu. Þar að auki átti Gaddafi sjálfur tvö mótorhjól af gerðinni Harley Davidson.

Gaddafi og fjölskylda hans smygluðu gífurlegum fjárhæðum út úr Líbýu meðan að Gaddafi var þar við völd. Í vetur greindi blaðið Los Angeles Times frá því að um 200 milljarða dollara hafi verið að ræða eða yfir 25.000 milljarða króna. Stór hluti af þessari upphæð, eða 37 milljarðar dollara var notaður til fjárfestinga í Bandaríkjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×