Innlent

Seðlabankinn fékk ekki upplýsingar um krosseignatengsl

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Tryggvi Pálsson bar vitni fyrir Landsdómi í morgun.
Tryggvi Pálsson bar vitni fyrir Landsdómi í morgun. mynd/ GVA.
Fjármálaeftirlitið neitaði að láta Seðlabankann hafa upplýsingar um einstaka lántakendur bankanna í aðdraganda hrunsins vegna bankaleyndar. Af þessum sökum gat Seðlabankinn ekki áttað sig á krosseignatengslum í bankakerfinu. Þetta sagði Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans, þegar hann bar vitni fyrir Landsdómi í dag.

Eiríkur Tómasson, dómari við réttinn, sagði að það hefði komið fram í máli Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra, að hann hefði áttað sig á því í ferð til Lundúna í febrúar 2008 hvernig krosseignatengslum í bankakerfinu væri háttað. Spurði hann hvort Seðlabankinn hefði leitað eftir upplýsingum um þetta frá Fjármálaeftirlitinu. „Það var svar Fjármálaeftirlitsins að bankaeftirlitið leit á upplýsingar um einstaka lántakendur sem trúnaðarupplýsingar og það mætti ekki upplýsa okkur," sagði Tryggvi.

Tryggvi segir að sama svar hafi verið gefið nokkru síðar þegar sænska fjármálaeftirlitið leitaði eftir þessum upplýsingum. Fjármálaeftirlitð hafi ekki viljað gefa þeim upplýsingar nema með einhverjum númerum. „Við töldum eðlilegt að við fengum þessar upplýsingar núna, en eftirlitið taldi sér ekki heimilt að veita þessar upplýsingar," sagði Tryggvi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×