Viðskipti erlent

Netið myndar 8,3% af landsframleiðslu Bretlands

Netið leggur til um 8,3% af landsframleiðslu Bretland og er þetta hæsta hlutfallið meðal G-20 ríkjanna.

Ný rannsókn sem unnin var af Boston Consulting Group sýnir fram á þetta en nethagkerfið í Bretlandi lagði 121 milljarð punda til landsframleiðslunnar þarlendis árið 2010. Þetta samsvarar um 2.000 pundum, eða um 400.000 krónum á hvern Breta.

Þar með er netið stærra en heilbrigðisgeirinn, byggingastarfsemi eða menntunargeirinn í Bretlandi hvað þetta varðar. Meðal annars kom í ljós að mun meira er verslað á netinu í Bretlandi en í nokkru öðru af stærstu hagkerfum heimsins. Talið er að netverslunin verði orðin nær fjórðungur af allri verslun í Bretlandi árið 2016.

Fram kemur í rannsókn Boston Consulting Group að mikill og hraður uppgangur verði í nethagkerfi Bretlands á næstu árum. Reiknað er með að það vaxi um 11% á ári fram til ársins 2016 og það ár verði stærð þess orðin um 221 milljarður punda eða um 44 þúsund milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×