Viðskipti erlent

Röng frétt olli því að heimsmarkaðsverð á olíu rauk upp

Mikill taugatitringur er á olíumörkuðum heimsins. Röng frétt í arabískum fjölmiðlum olli því að heimsmarkaðsverð á olíu rauk upp í gærkvöldi.

Verðið á Brentolíunni hækkaði um 5% á nokkrum klukkutímum í gærkvöldi og fór yfir 128 dollara á tunnuna. Tunnan af bandarísku léttolíunni hækkaði einnig, en ekki eins mikið eða um 3% og fór um tíma yfir 110 dollara á tunnuna. Þetta er hæsta heimsmarkaðsverð á olíu síðan fyrir kreppuna árið 2008.

Það sem olli þessum hækkunum voru fréttir í arabískum fjölmiðlum um að ráðist hefði verið á olíuleiðslu í Saudi Arabíu og hún sprengd í loft upp. Síðar kom í ljós að þessar fréttir voru rangar og gaf olíuverðið þá aðeins eftir að nýju. Í morgun kostaði tunnan af Brentolíunni þannig rúma 125 dollara.

Sérfræðingar sem BBC ræddi við um málið segja að olíuverðið sé alltof hátt skráð í augnablikinu. Vorið er að koma í Bandaríkjunum og Evrópu og ætti það að draga úr eftirspurninni. Raunar er talið að tunnan af Brentolíunni gæti lækkað um 20 dollara ef ró kemst á í deilum Vesturveldanna við Íran.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×