Innlent

Hefði verið tilgangslaust að hafa Icesave í dótturfélagi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fjöldi fólks fylgist með vitnaleiðslum í Landsdómi í dag.
Fjöldi fólks fylgist með vitnaleiðslum í Landsdómi í dag. mynd/ gva.
„Icesave reikningarnir hefðu aldrei haft neinn tilgang fyrir bankana ef þeir hefðu verið í dótturfélagi," sagði Arnór Sighvatsson, fyrrverandi aðalhagfræðingur Seðlabankans, fyrir Landsdómi í dag.

Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari spurði Arnór hvort ekki hefði verið rætt um það frá upphafi að Icesavereikningarnir yrðu hafðir í erlendu dótturfélagi. Arnór benti á að tilgangurinn með því að opna Icesave reikningana í Bretlandi og Hollandi hafi verið að fjármagna Landsbankann sem var kominn í lánsfjárvandræði og vantaði fjármögnun í erlendum gjaldeyri „Þetta var sú fjármögnunarleið sem var notuð," sagði Arnór.

Arnór hafði áður bent á að bankarnir hefðu verið komnir í veruleg vandræði árið 2005 vegna erfiðleika á lánamörkuðum. Vandræðin hefðu magnast árið 2006 þegar reynt var að leysa vandann með því að stofna Icesave reikningana.

Í ákærunni gegn Geir er honum meðal annars gefið að söka að hafa ekki fylgt því eftir og fullvisað sig um að unnið væri að virkum hætti að flutningi Icesave-reikningana í Bretlandi yfir í dótturfélag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×