Viðskipti erlent

Um 37% Dana sinnir einkaerindum í vinnutímanum

Ný könnun sýnir að yfir þriðjungur Dana sinnir ýmsum einkaerindum sínum í vinnutímanum.

Það var ráðningarstofan Randstad í Kaupmannahöfn sem vann þessa könnun meðal launþega. Í ljós kom að 37% þeirra notaði vinnutímann til að sinna ýmsum einkaerindum, eins og að svara persónulegum símtölum, senda tölvupósta, skoða athyglisverðar netsíður, panta miða á ýmsa viðburði eða snatta fyrir sjálfan sig út í bæ.

Á móti kemur að yfir helmingur aðspurðra eða 52%, störfuðu að verkefnum fyrir vinnuveitendur sína utan hefðbundins vinnutíma ef yfirmaður þeirra fór fram á slíkt.

Forstjóri Randstad segir í samtali við börsen að þessar niðurstöður komi ekki á óvart. Mikilvægt sé að skilningur ríki milli vinnuveitenda og launþega um svona einkastúss í vinnutímanum og að jafnvægi ríki milli þess og þeirrar vinnu sem launþegar taka að sér utan vinnutíma síns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×