John Terry, fyrirliði Chelsea, þarf að fara í aðgerð vegna meiðslanna sem hafa haldið honum frá keppni síðustu þrjár vikur. Terry glímir við meiðsli á hægra hné en forráðamenn Chelsea höfðu vonast til þess að hann gæti spilað á móti Napoli í Meistaradeildinni í kvöld.
AP-fréttastofan hefur nú heimildir fyrir því að meiðslin séu það alvarlega að þau kalli á aðgerð á hnénu en það myndi þýða að Terry yrði ekkert með Chelsea næstu tvo mánuðina.
Terry æfði með Chelsea-liðinu í gær en vaknaði síðan sárþjáður í morgun og þegar varð ljóst að hann gæti ekki spilað á móti Napoli í kvöld.
Chelsea hefur ekki unnið leik síðan að Terry spilaði síðast með liðinu á móti Queens Park Rangers 28. janúar síðastliðinn og er liðið nú komið niður í 5. sætið í ensku úrvalsdeildinni.
Terry meiddist fyrst á hægra hnénu í bikarleik á móti Portsmouth í byrjun janúar þegar hann lenti á annarri stönginni.
Enski boltinn