Fótbolti

Marta aftur í sænsku deildina | Fær 124 milljóna samning hjá Tyresö

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marta.
Marta. Mynd/Nordic Photos/Getty
Brasilíska knattspyrnukonan Marta er á leiðinni aftur í sænsku úrvalsdeildina en Tyresö hefur boðað til blaðamannafundar í dag þar sem sænskir fjölmiðlar hafa heimildir fyrir því að Marta verði kynnt sem nýr leikmaður liðsins.

Marta er 25 ára gömul og hefur fimm sinnum verið kosin besta knattspyrnukona heims. Hún hefur spilað í bandarísku deildinni síðustu tímabil en fer nú aftur til Svíþjóðar þar sem bandaríska deildin var flautuð af í ár.

Marta fór á kostum með Umeå IK á árunum 2004 til 2008 en hún skoraði þá 111 mörk í 103 deildarleikjum og varð fjórum sinnum sænskur meistari. Hún hefur orðið bandarískur meistari undanfarin tvö tímabil, 2010 með FC Gold Pride og 2011 með Western New York Flash.

Spænska Sportblaðið hefur heimildir fyrir því að Marta fái eina milljón dollara fyrir tímabilið eða 124 milljónir íslenskra króna.

Tyresö ætlar sér stóra hluti á tímabilinu en liðið hefur einnig fengið til sína sterka leikmenn eins og Caroline Seger, Veronica Boquete, Linda Sembrant og Lisa Dahlkvist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×