Bitru stríði innan Bettencourt fjölskyldunnar er lokið með því að hin tæplega níræða Liliane hefur sagt sig úr stjórn snyrtivörurisans L´Oréal.
Ættingjar Liliane Bettencourt fengu dæmt af henni sjálfræðið síðasta haust en sú gamla þjáist af elliglöpum og vægu tilfelli af Alzheimer. Sjálfræðið missti hún þegar í ljós kom að hún hafði gefið ljósmyndara sínum jafnvirði um 150 milljarða króna í formi listaverka og reiðufjár.
Liliane hefur raunar efni á slíkum gjöfum enda er hún sem erfingi L´Oréal veldisins næst auðugasta kona heimsins. Forbes telur að auður hennar nemi hátt í þrjú þúsund milljörðum króna.
Sá sem tekur við stjórnarsetunni í snyrtivöruveldi Bettencourt fjölskyldunnar er barnabarn hennar, Jean-Victor Meyers. Franskir fjölmiðlar vilja ekki útiloka að erjur fjölskyldunnar blossi upp aftur enda mun reiðin sjóða í Liliane vegna þessara málaloka.
Liliane Bettencourt segir sig úr stjórn L´Oréal
