Viðskipti erlent

Skattsvik og fúsk kosta ríkissjóð Dana 150 milljarða á ári

Skattsvik danskra fyrirtækja eða mistök þeirra í gerð skattframtala eru talin kosta ríkissjóð landsins um 7 milljarða danskra króna eða um 150 milljarða króna á hverju ári.

Þetta kemur fram í ítarlegri úttekt í Politiken í dag þar sem greint er frá umfangsmikilli rannsókn danska skattsins á skattframtölum frá 3.000 fyrirtækjum í Danmörku.

Af þessari upphæð tapar ríkissjóður um 4,2 milljörðum danskra króna vegna mistaka við gerð framtalanna eða að kastað hefur verið til höndunum við gerð þeirra.

Hinsvegar er harður kjarni fyrirtækja sem stunda meðvitað skattsvik og slíkt er talið kosta ríkissjóðinn um 2,8 milljarða danskra króna. Í ljós kom að í 42% tilvika hjá þessum 3.000 fyrirtækjum var skattframtalið ekki í lagi eða rangt.

Thor Möger Pedersen skattaráðherra Danmerkur segir að þessi niðurstaða sé algerlega óásættanleg og boðar aðgerðir gegn þessum skattsvikum og fúski við framtölin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×