Viðskipti erlent

Grikkir ósáttir við Þjóðverja

Papademos er forsætisráðherra Grikklands.
Papademos er forsætisráðherra Grikklands. mynd/ afp.
Grískir embættismenn hafa brugðist ókvæða við áformum þýskra stjórnvalda, sem láku í fjölmiðla fyrir helgi, um að leggja til að Evrópusambandið fái synjunarvald yfir skattastefnu og útgjöldum gríska ríkisins.

Þjóðverjar líta svo á að þeir séu með þessu tryggja yfirráð yfir eigin fjárlögum, þar sem þýska ríkið greiði svo mikið björgunarsjóð sem aðstoði Grikki í vandræðum.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur áður lýst því yfir að hún vilji styrkja eftirlit með ríkisfjármálum Grikklands án þess þó að skerða fullveldi landsins.

Gríska ríkið er nálægt samkomulagi við lánveitendur sína en það er skilyrði þess að næsta greiðsla verði greidd til ríkisins úr björgunarsjóði ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Í mars næstkomandi þarf gríska ríkið að greiða upp mikið magn skuldabréfa en án greiðslu úr björgunarsjóðnum getur ríkið ekki greitt þessi lán og það gæti þýtt greiðslufall gríska ríkisins og í fyllingu tímans, útgöngu úr Evrópska myntbandalaginu og þar með evrunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×