Viðskipti erlent

Störfum fjölgar í Bandaríkjunum

Störfum í Bandaríkjunum fjölgaði um 200 þúsund í desembermánuði sem var að líða, samkvæmt opinberum tölum. Þetta er sjötti mánuðurinn í röð þar sem störfum fjölgar á milli mánaða og varð nokkru meiri fjölgun en búist hafði verið við. Atvinnuleysið í landinu mældist 8,5 prósent í desember sem er nokkru betri árangur en í mánuðinum á undan þegar það var 8,7 prósent. Mest fjölgaði störfum í verslun, framleiðslu og í samgöngum.

Þegar litið er til alls ársins 2011 fjölgaði störfum í Bandaríkjunum um 1,6 milljónir og er það mesta aukning á milli ára frá árinu 2006. Störfum hefur mest fjölgað í einkageiranum og raunar fækkaði störfum á vegum hins opinbera um 280 þúsund árið 2011.

Nýju tölurnar þykja góðar fréttir fyrir Barack Obama forseta sem stefnir á endurkjör í haust. Hingað til hefur hann af repúblikönum verið harðlega gagnrýndur fyrir lélega frammistöðu í atvinnumálunum. Obama hefur þráfaldlega bent á að efnahagur Bandaríkjanna sé að vænkast og ættu tölurnar að renna stoðum undir þær fullyrðingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×