Viðskipti erlent

Gífurlegar hópuppsagnir framundan hjá Nokia

Gífurlegar hópuppsagnir eru framundan hjá Nokia í framhaldi af umfangsmiklum samstarfssamningi sem fyrirtækið hefur gert við Microsoft. Um er að ræða að fleiri þúsund manns muni missa vinnu sina að því er segir í frétt um málið á business.dk.

John Strand sérfræðingur í fjarskiptamálum og forstjóri Strand Consult segir að hópuppsagnirnar muni einnig ná til þróunarmiðstöðvar Nokia í Kaupmannahöfn. Strand segir að með því að semja við Microsoft hafi Nokia í raun gefist upp og kastað handklæðinu í hringinn.

„Að hugsa sér að fyrirtæki sem selur hálfan milljarð farsíma á ári og framleiðir fleiri snjallsíma en Google og Apple samanlagt skuli kasta handklæðinu í hringinn," segir Strand.

Strand segir að þetta gefi byr í samsæriskenningar um að hinum nýja forstjóra Nokia, Stephen Elop, hafi verið komið fyrir í Nokia. Elop var sóttur til Microsoft fyrir fjórum mánuðum síðan.

Fyrrgreindur samstarfssamningur gengur út á að héðan í frá muni Nokia nota hugbúnaðinn Microsoft Windows Phone í dýrustu farsímana sína í stað eigin hugbúnaðar sem heitir Symbian.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×