Erlent

Stjórnarherinn farinn frá Homs

Skriðdreki í Homs Hundruð manna hafa látist í aðgerðum stjórnarhersins gegn mótmælendum undanfarna viku.nordic photos/AFP
Skriðdreki í Homs Hundruð manna hafa látist í aðgerðum stjórnarhersins gegn mótmælendum undanfarna viku.nordic photos/AFP
Sýrlandsstjórn kallaði herlið sitt frá borginni Homs í gær þegar fyrstu eftirlitssveitirnar frá Arababandalaginu voru komnar til landsins.

Þegar eftirlitsmenn komu til Homs að kanna ástandið þar streymdu þúsundir mótmælenda út á götur til að upplýsa um atburði liðinna vikna og mánaða þar í borg.

Aðgerðir stjórnarhersins gegn mótmælendum kostuðu að minnsta kosti 23 manns lífið í gær, til viðbótar þeim hundruðum manna sem létu lífið í vikunni á undan. Þúsundir hermanna hafa tekið þátt í umsátri um borgina Homs síðustu vikur og mánuði.

Áætlun Arababandalagsins, sem Bashar al Assad forseti samþykkti fyrir viku, felur í sér að sérsveitir hersins og öll þungvopn verði fjarlægð af götum borga landsins, viðræður hefjist við leiðtoga stjórnarandstöðunnar og bæði fréttamenn og fulltrúar mannréttindasamtaka fái að fara inn í landið.

Ekki var annað að sjá en að Assad og stjórnarherinn hefðu hert aðgerðir sínar gegn mótmælendum í Homs fyrst eftir að samkomulag tókst við Arababandalagið en í gær varð breyting þar á.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×