Lífið

Hættur að leika feita strákinn

Jonah Hill getur leikið fleira en fyndna hrakfallabálkinn.nordicphotos/Getty
Jonah Hill getur leikið fleira en fyndna hrakfallabálkinn.nordicphotos/Getty
Jonah Hill leikur í Moneyball á móti Brad Pitt. Hlutverkið hefur breytt lífi hans til mikilla muna.

Ferill leikarans unga Jonah Hill hefur heldur betur tekið kipp upp á við á árinu sem er að líða. Hill, sem áður var þekktastur fyrir að hafa leikið í gamanmyndum líkt og Get Him to the Greek og Superbad, hefur verið tilnefndur til Screen Actors Guild og Golden Globe verðlaunanna fyrir hlutverk sitt í Moneyball þar sem hann leikur á móti Brad Pitt og Philip Seymour Hoffman.

Hill segist enn ekki trúa því að hann hafi fengið tilnefningarnar, og segir tilfinninguna líkjast því að gifta sig eða eignast barn. „Viðbrögðin sem ég hef fengið eru ólík nokkru sem ég hef kynnst áður. Þetta er í fyrsta sinn sem eitthvað svona ótrúlegt gerist í lífi mínu – mamma mín og pabbi fóru meira að segja að gráta.“

Hill er ánægður með að hafa fengið tækifæri til að sýna leikhæfileika sína, og telur sig hafa verið á barmi þess að festast til frambúðar í sama hlutverkinu sem feiti, fyndni strákurinn.

Hann sagðist hafa fundið á sér að stór breyting yrði á lífi hans þegar hann fékk hlutverkið á móti Brad Pitt. Þegar tökum á Moneyball lauk tók leikarinn upp heilsusamlegra líferni og hefur grennst um tugi kílóa. Hann sagði í viðtali; „Mér líður eins og ég sé staddur á frábæru skeiði í lífinu. Þetta er tími breytinga. Mér leið eins og ég væri að upplifa örlagaríkt augnablik þegar ég fékk hlutverkið, og það var það svo sannarlega.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×