Erlent

Jacques Chirac fær tveggja ára dóm

Jacques Chirac Forsetinn fyrrverandi í bíl sínum þegar mál á hendur honum var dómtekið í mars.Nordicphotos/AFP
Jacques Chirac Forsetinn fyrrverandi í bíl sínum þegar mál á hendur honum var dómtekið í mars.Nordicphotos/AFP
Jacques Chirac, fyrrverandi Frakklandsforseti, hlaut í gær tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir fjárdrátt til að fjármagna starfsemi stjórnmálaflokks hans, PRP. Chirac, sem er 79 ára og heilsuveill, var formaður flokksins frá 1977 til 1995, en þá var hann jafnframt borgarstjóri í París.

Chirac tók ekki þátt í réttarhöldunum eftir að læknar sögðu hann plagaðan af alvarlegum minnisglöpum og var ekki viðstaddur dómsuppkvaðningu í gær. Hann hefur hins vegar oft vísað ásökunum á hendur sér á bug.

Í dómnum er Chirac sagður sekur um að hafa búið til gervistörf innan stjórnmálaflokks síns og að hafa með því dregið flokknum opinbert fé, brugðist trausti almennings og átt þátt í ólöglegum hagsmunatengslum.

Chirac er í hópi tíu manna sem sóttir voru til saka fyrir pólitíska spillingu. Hann var ekki lögsóttur fyrr vegna þess að árin 1995 til 2007 naut hann friðhelgi sem forseti Frakklands. Í dómnum segir að við ákvörðun refsingar hafi verið litið til aldurs, heilsufars og stöðu Chiracs.

Lögmaður Chiracs segir að farið verði vandlega yfir dóminn áður en tekin verður ákvörðun um hvort honum verður áfrýjað.

- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×