Erlent

Svik nema hundruðum milljarða

Kaupmannahöfn Fyrirtækið segir að líklega komist aðeins upp um fjögur til sjö prósent af bótasvikum á hverju ári. 
nordicphotos/afp
Kaupmannahöfn Fyrirtækið segir að líklega komist aðeins upp um fjögur til sjö prósent af bótasvikum á hverju ári. nordicphotos/afp
Rúmlega þrjú prósent Dana svíkja bætur úr velferðarkerfinu á hverju ári, samkvæmt nýrri rannsókn sem fyrirtækið KMD Analyse gerði.

Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að á bilinu sjö til tólf milljarðar danskra króna séu sviknir út úr kerfinu á hverju ári, eða um 150 til 256 milljarðar íslenskra króna. Fyrirtækið tók viðtöl við Dani og viðurkenndu 3,2 prósent þeirra að taka við bótum sem þeir þurfa ekki á að halda. Dæmi um bótasvik eru að fólk tekur við bótum en segir ekki frá raunverulegum tekjum sínum, eða fær atvinnuleysisbætur án þess að leita að starfi eða hafa neitað vinnu.

Í fyrra voru 350 milljónir danskra króna endurheimtar eftir að upp komst um bótasvik, en KMD segir að það séu líklega aðeins um fjögur til sjö prósent af raunverulegum svikum. Sveitarfélög treysta að mestu leyti á nafnlausar ábendingar til að koma upp um svikin.

Fyrirtækið mælir með því að með betri eftirfylgni og samstarfi milli mismunandi stjórnsýslustiga væri hægt að gera mun betur. Þá bendir fyrirtækið einnig á að einfalda þurfi skilyrði fyrir því að fá bætur. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×