Erlent

Drap ræstingakonuna fyrst

Harmleikur í LiÈge Fjöldi manns lagði leið sína á morðstaðinn í gær.
nordicphotos/AFP
Harmleikur í LiÈge Fjöldi manns lagði leið sína á morðstaðinn í gær. nordicphotos/AFP
Fjöldi fólks lagði leið sína á torgið Place Saint-Lambert í belgísku borginni Liege í gær, margir með blóm til að minnast þeirra sem létust í árásinni á þriðjudag.

Rúmlega þrítugur maður myrti þar að minnsta kosti þrjár manneskjur og særði á annað hundrað manns áður en hann svipti sjálfan sig lífi. Áður en hann framdi þetta voðaverk hafði hann myrt konu á fimmtugsaldri skammt frá árásarstaðnum í húsnæði, sem hann virðist hafa notað til að rækta kannabisplöntur.

„Þetta var ræstingakona,“ sagði Daniele Reynders, saksóknari í Liège. „Svona mætti hún honum í gærmorgun. Hún deyr, skotin með byssukúlu í höfuðið.“

Að sögn belgísku lögreglunnar létust tveir unglingspiltar í árásinni, annar 15 ára og hinn 17 ára, báðir nýkomnir úr prófi. Einnig lést tæplega tveggja ára gamalt barn af sárum sínum og 75 ára gömul kona, sem áður var sögð látin, var í gær sögð liggja milli heims og helju á sjúkrahúsi. Henni var samt ekki hugað líf. Nokkrir aðrir eru á gjörgæslu, þar á meðal tvítugur piltur sem tvísýnt er um.

Alls voru 123 særðir eftir árásina og 40 í viðbót fengu áfallahjálp.

Amrani hélt í hádeginu á þriðjudaginn vopnaður handsprengjum og skotvopnum upp á þak á lágreistri byggingu þar sem hann hafði góða yfirsýn yfir strætisvagnabiðstöð. Hann kastaði að minnsta kosti þremur handsprengjum áður en hann hóf skothríð, en svipti sig síðan lífi. „Banamein hans var skot í mitt ennið,“ sagði Reynders saksóknari.

„Hann skildi ekki eftir nein skilaboð til að útskýra verknaðinn.“

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×