Erlent

Fleiri refsiaðgerðir samþykktar

Flutt úr Sendiráði Flutningamaður aðstoðar íranska erindreka við að koma farangri úr húsi.nordicphotos/AFP
Flutt úr Sendiráði Flutningamaður aðstoðar íranska erindreka við að koma farangri úr húsi.nordicphotos/AFP
Bandaríkjaþing samþykkti í gær refsiaðgerðir á hendur Íran, daginn eftir að Evrópusambandið tók ákvörðun um slíkt hið sama.

Írönsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að koma ekki í veg fyrir árás á breska sendiráðið í Teheran í vikunni. Þau hafa einnig verið gagnrýnd fyrir að ætla að koma sér upp kjarnorkuvopnum, eins og segir í nýrri skýrslu Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar þótt írönsk stjórnvöld þvertaki fyrir slíkt.

Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, hvatti enn fremur stjórnvöld í Tyrklandi, þar sem hann var í heimsókn í gær, til að samþykkja refsiaðgerðir á hendur Íran, og hrósaði Tyrkjum jafnframt fyrir að þrýsta á Bashar al-Assad Sýrlandsforseta með refsiaðgerðum.

Írönsk stjórnvöld virðast hins vegar engar áhyggjur hafa af viðbrögðum Vesturlanda.

Ali Larjani, forseti íranska þingsins, notaði þvert á móti tækifærið og útskýrði fyrir fréttamönnum sögulegar ástæður þess að mörgum Írönum þykir Bretar hafa farið illa með Íran, og sagði árásina á sendiráðið skýrast af uppsafnaðri reiði landsmanna. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×