Fótbolti

Pálmi Rafn: Þetta er alveg hræðilegt ástand

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Pálmi Rafn Pálmason vonast til þess að finna sér lið á Norðurlöndunum.
Pálmi Rafn Pálmason vonast til þess að finna sér lið á Norðurlöndunum. Mynd/Valli
„Það er allt í steik hérna. Maður þakkar Guði fyrir að vera að losna undan samningi hérna,“ segir Húsvíkingurinn Pálmi Rafn Pálmason um ástandið hjá félagi sínu, Stabæk.

Félagið virðist vera svo gott sem gjaldþrota og á mánudag var tilkynnt að félagið þyrfti að skera niður kostnað sem nemur um 700 milljónum króna.

Þeir sex leikmenn, fyrir utan Pálma, sem eru að klára samning fá væntanlega ekki nýtt tilboð og félagið mun þess utan þurfa að losa sig við 6-7 leikmenn. Framtíð félagsins er því í algjörri óvissu.

„Það er þung stemning hérna núna. Fundurinn var mjög erfiður fyrir alla enda þarf að segja upp fullt af starfsfólki, ekki bara leikmönnum. Sá fundur var mjög þungur. Það er óhætt að segja að það sé ekkert spes stemning hérna núna,“ segir Pálmi sem verður samningslaus um áramótin.

„Það verður lítið eftir þegar rúmlega tíu leikmenn verða kannski farnir. Þetta er því hræðilegt ástand. Það segir sig sjálft.“

Pálmi er ekki eini Íslendingurinn í herbúðum Stabæk en þar er einnig bakvörðurinn Bjarni Ólafur Eiríksson. Hann á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið og óljóst hvort félagið ætli sér að óska eftir kröftum hans áfram.

Þá er enn óljóst hvað verður aðhafst í máli Stabæk vegna sölunnar á Veigari Páli Gunnarssyni en það mál er í rannsókn hjá lögreglu.

Félagið er þar sakað um að hafa reynt að falsa kaupverðið á Veigari Páli til Valerenga, í von um að komast hjá því að greiða franska félaginu Nancy helming söluverðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×