Skoðun

Stóra myndin

Evrópumálin snúast um framtíðina. Þau snúast um hvort við Íslendingar ætlum að taka skrefið fram á við og treysta samband okkar við önnur sjálfstæð ríki innan vébanda Evrópusambandsins, eða hvort við ætlum að standa í stað og láta EES-samninginn duga. Sjá til, vona það besta og gera enn eina tilraun með sjálfstæða örmynt á sameiginlegum markaði, með eða án gjaldeyrishafta. Svo eru þeir sem vilja stíga skrefið tilbaka, segja upp EES- og Schengen-samningunum. Halda á heiðina eins og Bjartur forðum daga. Fram á við, standa í stað, afturábak. Um þetta snýst valið.

Ég er staðfastlega þeirrar skoðunar að langbesta leiðin til þess að eiga vitræna umræðu um þessa valkosti sé að leiða til lykta aðildarviðræður Íslands og ESB. Aðeins þannig fáum við úr því skorið hvort þær hindranir sem hingað til hafa fælt okkur frá því að sækjast eftir fullri aðild séu raunverulegur tálmi eða tilbúið bitbein.

Aðeins með því að semja um aðild kemur í ljós hvort sá ávinningur sem aðrar þjóðir hafa notið við aðild á ekki líka við um Ísland. Aðeins aðildarsamningur losa okkur við getgátur um hvað sé gerlegt í samningum og svarar spurningum okkar um kosti og galla aðildar. Þá fyrst getur íslenska þjóðin tekið sjálfstæða ákvörðun um eigin framtíð.

Samningaviðræðurnar eru þegar hafnar. Þær hafa hingað til gengið mjög vel. Við höfum þegar opnað 6 kafla af 33 sem um þarf að semja, og lokið viðræðum um fjóra. Það er nánast einsdæmi. Vonir standa til þess að um mitt næsta ár verði viðræður hafnar um alla málaflokka, og lokið um meirihluta samningskafla. Þá fer að sjá til lands.

Ávinningurinn af EvrópuÍ umræðunni núna er mikilvægt að greina milli þess sem við vitum og vitum ekki, á milli reynslu fortíðar og væntinga framtíðar. Það sem við vitum er að Ísland hefur notið ríkulegs ávinnings af þátttöku í Evrópusamvinnunni. Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu tryggði öryggi okkar á viðsjárverðum tímum kalda stríðsins.

Aðildin að EFTA og síðar EES skaut traustum þverbitum undir íslenskt atvinnulíf og útflutning okkar. Allar þessar ákvarðanir voru umdeildar á sínum tíma og það þurfti pólitíska forystu og framsýni til að ná þeim í gegn. Í dag er óumdeilt að með þátttöku í Evrópusamvinnunni höfum við tryggt öryggi og bætt lífskjör Íslendinga, aukið fjölbreytni og samkeppnishæfni í atvinnulífinu og skapað tækifæri fyrir íslenskar fjölskyldur og fyrirtæki sem annars hefðu lifað við fábreytni og einangrun.

Spurningin sem við stöndum núna frammi fyrir er hvort sú ákvörðun að gerast fullgildur þátttakandi í ESB muni með sama hætti treysta enn frekar fullveldi okkar og framtíð. Reynsla annarra ríkja er vísbending. Öll ríkin sem gengið hafa í ESB telja það hafa þjónað sínum hagsmunum. Frændur okkar Írar segja aðildina hafa gert þeim kleift að stíga upp úr sárri fátækt. Vinir okkar í Eistlandi hafa notið góðs af fjárfestingum og útflutningi. Og norrænar bræðraþjóðir okkar í Svíþjóð, Danmörk og Finnlandi hafa allar notið ESB-aðildar, hver með sínum hætti.

Enginn kvartar undan því að hafa glatað sjálfstæði sínu eða yfirráðum yfir auðlindum. Og ekkert aðildarríki vill ganga úr sambandinu, ekki einu sinni mínir góðu vinir í breska Íhaldsflokknum! Nýverið kolfelldu David Cameron og hans menn tillögu um að fram færi þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn. Bretar eru evróskeptískir en þeir vita sem er að aðildin tryggir hag Bretlands. Þessa vegna sögðu þeir Já við Evrópu og Nei við óvissu og einangrun.

En hvað með krísuna?Enginn dregur fjöður yfir þá staðreynd að Evrópa glímir núna við erfiðan efnahagsvanda. En sá vandi er skuldavandi og hann er ekki bundinn við Evrópu heldur teygir anga sína um allan heim. Um það vitnar skýrsla AGS í vikunni.

Evrópusambandsríkin hafa nú þegar gripið til margvíslegra róttækra ráðstafana til að vinna sig út úr þessu og tryggja að skuldsetning einstakra ríkja geti ekki endurtekið sig. Það er mín bjargföst trú að evran muni koma sterkari og stöðugri út úr þessum hreinsunareldi. Menn geta verið sammála eða ósammála því mati. En í Evrópu eru menn sammála um eitt: Núverandi efnahagserfiðleikar kalla á meiri samvinnu, ekki minni, og það er enginn að gefast upp. Við þurfum meiri Evrópu til að vinna okkur út úr vandanum.

Hvað sem krísunni líður er ávinningur Evrópusamvinnunnar óbreyttur. Kostir innri markaðar Evrópu munu áfram skila sér í bættri samkeppnishæfni, auknum útflutningi og atvinnu eins og Samtök atvinnulífsins þekkja svo vel. Kostir Evrópusamstarfs um nýsköpun og vísindi, menningu og menntun, rannsóknir og þróun, skapa hagvöxt og störf. Það hafa Samtök iðnaðarins og íslensk nýsköpunarfyrirtæki margsinnis bent á. Og grundvallarkostir evrunnar sem felast m.a. í stöðugleika, innra og ytra aðhaldi, lægri vöxtum og verðbólgu, aukinni fjárfestingu og atvinnu hafa ekki breyst.

Þess vegna kalla forystumenn íslenskra fyrirtækja eftir upptöku hennar. Íslensk heimili taka undir það. Skuldavandi Grikklands, Ítalíu og fleiri ríkja breytir engu um þessa grundvallarkosti Evrópusamvinnunnar. Það má leiða að því líkur að um það leyti sem við Íslendingar kjósum um aðild verði Evrópusambandið búið að treysta innviði sína og umgjörð efnahagsmála svo um munar. Þá býðst Íslandi aðild að enn sterkara ESB.

Framtíðarsýn og stefnufestaStóra myndin er þessi. Við vitum að Evrópusamvinnan á vettvangi EES og EFTA hefur reynst okkur Íslendingum vel og að Evrópusambandsaðild hefur reynst aðildarríkjunum vel. Um það vitnar reynsla annarra Norðurlandaríkja, vina okkar í Eystrasaltsríkjunum og annarra aðildarríkja. Með því að ljúka aðildarviðræðum og fá aðildarsamning á borðið vitum við með vissu hverjir kostir og gallar aðildar eru og getum vegið þá og metið út frá hagsmunum Íslands.

Allt tal um að Evrópa sé komin að fótum fram, um endalok sjálfstæðis og auðlindaafsal stenst ekki skoðun. Yfirstandandi skuldavandi einstakra Evrópuríkja er ekki tilefni til óðagots.

Stjórnmálin snúast um stefnufestu og framtíðarsýn. Barátta æstustu Evrópuandstæðinganna fyrir því að ganga gegn meirihlutavilja Alþingis, hætta við og breyta umsókninni í bjölluat hefur fengið lítinn hljómgrunn. Þó að skiptar skoðanir séu um aðild eins og vera ber í lýðræðissamfélagi hafa kannanir sýnt að 2/3 hluti Íslendinga vilja ljúka viðræðum og kjósa um aðildarsamning. Íslendingar vilja fá að kjósa um framtíðina. Það munu þeir fá að gera.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×