Erlent

Flókið kosningakerfi tefur úrslit

Kosningadagur Eldri maður í Dublin á leið til kjörstaðar.nordicphotos/AFP
Kosningadagur Eldri maður í Dublin á leið til kjörstaðar.nordicphotos/AFP
Írar kusu sér nýjan forseta í gær. Talning atkvæða hefst í dag en úrslitin verða þó varla ljós fyrr en á morgun, því kosningakerfið á Írlandi er flókið.

Sigurstranglegastur í skoðanakönnunum fram á síðustu daga var Sean Gallagher, 49 ára athafnamaður sem varð þjóðþekktur þegar hann stjórnaði írskum raunveruleikaþætti.

Möguleikar hans á sigri voru þó taldir hafa minnkað verulega í síðustu sjónvarpskappræðum frambjóðenda, þegar hann varð uppvís að því að hafa fengið dæmdan smyglara til þess að útvega fé með vafasömum hætti til stjórnmálaflokksins Fianna Fail, en sá flokkur hraktist frá völdum í byrjun kreppunnar.

Líklegt þykir að Michael D. Higgins, sjötugur þingmaður, vinstrisinnaður baráttumaður fyrir mannréttindum og þekktur fyrir menningaráhuga sinn, njóti helst góðs af hugsanlegu fylgistapi Gallaghers.

Aðrir áberandi frambjóðendur eru Martin McGuinness, sem er umdeildur fyrir tengsl sín við Írska lýðveldisherinn, IRA, David Norris, sem er bókmenntafræðingur, og loks Dana Rosemary Scallon, sem vann sér það til frægðar að sigra í Eurovision-söngvakeppninni árið 1970.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×