Erlent

Lætur árásum á kristna órefsað

Kistur í röðum Hinir látnu voru jarðsungnir í gær.nordicphotos/AFP
Kistur í röðum Hinir látnu voru jarðsungnir í gær.nordicphotos/AFP
Koptíska kirkjan í Egyptalandi gagnrýndi stjórnvöld harðlega fyrir að láta endurteknum árásum á kristna menn lítt eða ekki refsað.

Óeirðir í Kaíró aðfaranótt mánudags kostuðu hátt í þrjátíu manns lífið, en flestir þeirra voru kristnir menn sem hugðust efna til friðsamlegra mótmæla vegna árásar á kirkju.

Shenuda þriðji, páfi koptísku kirkjunnar, lýsti í gær yfir þriggja daga sorg með bænum og föstuhaldi frá þriðjudegi til fimmtudags. Hann sá einnig í gær um útfarir nokkurra þeirra sem létu lífið í átökunum.

Átök kopta og múslima um helgina eru þau verstu í landinu síðan stjórn Hosni Mubarak var steypt af stóli snemma árs. Koptar eru um það bil tíu prósent landsmanna, eða átta milljónir af alls áttatíu milljónum íbúa Egyptalands.

Um þúsund koptar höfðu komið sér fyrir í miðborg Kaíró fyrir utan byggingu ríkissjónvarpsins við Nílarbakka. Þeir segja fjölmennan hóp fólks hafa ráðist á sig. Lögreglan blandaði sér fljótlega í átökin og meðal hinna látnu eru að minnsta kosti þrír lögreglumenn. Minni átök brutust út í gær fyrir utan sjúkrahús, þar sem hluti hinna særðu lá til aðhlynningar.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×