Erlent

Þjóðverjar ætla að vera með

Andar léttar Angela Merkel Þýskalandskanslari í hópi félaga sinna á þýska þinginu.nordicphotos/AFP
Andar léttar Angela Merkel Þýskalandskanslari í hópi félaga sinna á þýska þinginu.nordicphotos/AFP
Þýska þingið samþykkti í gærmorgun hlutdeild Þýskalands í stækkun neyðarsjóðs Evrópusambandsins, sem á að styrkja stöðugleika evrunnar með því að koma nauðstöddum evruríkjum til hjálpar.

Frumvarpið var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta flestra þingmanna stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar, að undanskildum Vinstriflokknum. Stjórnin hafði hins vegar fyrirfram lýst því yfir að henni væri varla sætt áfram nema atkvæði stjórnarþingmanna einna myndu duga til meirihlutaafgreiðslu frumvarpsins. Alls greiddu 315 þingmenn stjórnarflokkanna tveggja frumvarpinu atkvæði sitt, en á þinginu sitja 620 þingmenn þannig að stjórnin rétt stóðst þetta próf.

Stöðugleikasjóðurinn verður stækkaður úr 440 milljörðum evra í 780 milljarða, sem eykur lánagetu sjóðsins til nauðstaddra ríkja úr 250 milljörðum evra í 440 milljarða. Stærstur hluti framlaga evruríkjanna til sjóðsins kemur frá Þýskalandi og verður hlutur Þjóðverja nú aukinn úr 123 milljörðum í 211 milljarða.

Jafnframt þessu samþykkti þýska þingið, að sjóðurinn mætti ekki taka á sig neinar nýjar skuldbindingar án fyrir fram samþykkis frá þýska þinginu. Þar með hefur þýska þingið úthlutað sjálfu sér neitunarvaldi um frekari björgunaraðgerðir til handa Grikklandi, sem nú þegar eru í bígerð.

Ellefu evruríkjanna sautján hafa þá samþykkt stækkun sjóðsins, en öll verða þau að gefa samþykki sitt áður en stækkunin kemur til framkvæmda.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×