Erlent

Hátekjuskatturinn varla lengur í myndinni

Helle Thorning-Schmidt Segir fátt við fjölmiðla um stjórnarmyndunarviðræðurnar, sem þó virðast nálgast lokastig.
nordicphotos/AFP
Helle Thorning-Schmidt Segir fátt við fjölmiðla um stjórnarmyndunarviðræðurnar, sem þó virðast nálgast lokastig. nordicphotos/AFP
„Þetta verður búið þegar það er búið,“ hafa danskir fjölmiðlar eftir Helle Thorning-Schmidt, leiðtoga danska Sósíaldemókrataflokksins, sem talin er langt komin með stjórnarmyndunarviðræður við hina flokka vinstri blokkarinnar.

Leiðtogar Sósíalíska þjóðarflokksins og Róttæka flokksins, sem nú er talið að myndi stjórn með sósíaldemókrötum, vildu heldur ekkert láta eftir sér hafa um gang viðræðnanna.

Samkvæmt frásögn Jótlandspóstsins virðast sósíaldemókratar og sósíalistar ætla, að kröfu Róttæka flokksins, að falla frá áformum sínum um nýjan hátekjuskatt. Í staðinn sættir Róttæki flokkurinn sig við að strangar kröfur til innflytjenda verði áfram við lýði, meðal annars 24 ára reglan umdeilda, sem kveður á um að útlendingur, sem gengur í hjónaband með Dana, þurfi að vera 24 ára hið minnsta til að fá dvalarleyfi í Danmörku á grundvelli hjónabandsins.

Einingarlistinn, sem er lengst til vinstri allra dönsku stjórnmálaflokkanna, er engan veginn sáttur við þessa niðurstöðu um brotthvarf hátekjuskattsins.

Í gær var talað um að lendingin yrði tveggja eða þriggja flokka minnihlutastjórn, nefnilega stjórn sósíaldemókrata og sósíalista með stuðningi Einingarflokksins og annaðhvort stuðningi eða beinni aðild Róttæka flokksins.

Danska þingið kom saman í gær í fyrsta sinn frá kosningum, en þingfundurinn stóð aðeins í hálfa aðra mínútu. Aðeins tvö mál voru á dagskrá: Mogens Lykketoft, fyrrverandi leiðtogi danska Sósíaldemókrataflokksins, var kjörinn þingforseti og kosið var í nefnd til að fara yfir úrslit kosninganna.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×