Erlent

Mótmælendur höfðu betur

Evo Morales Forseti Bólivíu segist harma hversu mikil harka hefur færst í mótmælin.nordicphotos/AFP
Evo Morales Forseti Bólivíu segist harma hversu mikil harka hefur færst í mótmælin.nordicphotos/AFP
Evo Morales, forseti Bólivíu, ákvað á mánudag að fresta framkvæmdum við þjóðveg sem leggja átti þvert yfir þjóðgarð og sjálfstjórnarsvæði frumbyggja.

Fjölmenn mótmæli hafa verið gegn þessari fyrirhuguðu vegagerð síðan um miðjan ágúst. Til átaka hefur komið milli mótmælenda og lögreglu, en á sunnudag og mánudag hljóp mikil harka í þau átök.

Á sunnudag ákvað lögreglan að stöðva mótmælasamkomu og handtók fjölmarga mótmælendur. Á mánudag lokuðu mótmælendur síðan bæði vegum og flugvelli til að koma í veg fyrir að lögreglan færi með fanga burt af svæðinu. Lögreglan ákvað þá að láta hundruð handtekinna mótmælenda lausa.

Fáeinum klukkustundum síðar kom tilkynningin frá Morales forseta um að framkvæmdum yrði frestað. Hann sagðist jafnframt ekki hafa átt neinn hlut að ákvörðun lögreglunnar um að leysa upp mótmælin á mánudag og harmaði hvaða stefnu málið hafði tekið.

Vegurinn átti að auðvelda samgöngur milli tveggja mikilvægra svæða í landinu, í von um að það verði til að styrkja efnahagslíf landsins.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×