Innlent

Eineltisfé verður deilt á alla skólana

Skólastarf Börn í 21 grunnskóla í Reykjavík hafa um árabil stuðst við Olweus-áætlunina til að verjast einelti.Fréttablaðið/Anton
Skólastarf Börn í 21 grunnskóla í Reykjavík hafa um árabil stuðst við Olweus-áætlunina til að verjast einelti.Fréttablaðið/Anton
Reykjavíkurborg er hætt í samstarfi við Olweus um eineltisáætlanir í grunnskólum.

Sigrún Björnsdóttir hjá menntasviði Reykjavíkur segir að undanfarin ár hafi verkefnastjóri Olweus-áætlunarinnar á Íslandi fengið fasta 2,5 milljóna króna greiðslu fyrir að veita 21 grunnskóla í Reykjavík stuðning. Skólarnir hafi unnið gegn einelti í samræmi við áætlunina.

Tæplega tuttugu aðrir skólar sem kosið hafi að vinna samkvæmt öðru fyrirkomulagi hafi ekki fengið sambærilegan fjárstuðning í forvarnavinnu gegn einelti.

„Ekki þótti réttlætanlegt að gera með þessum hætti upp á milli skóla í miðlægri fjárveitingu, auk þess sem vonast var til þess að vinnubrögð og hugmyndafræði Olweus-áætlunarinnar hefði þegar fest sig í sessi í þeim skólum sem höfðu innleitt hana og unnið samkvæmt henni í mörg ár,“ segir Sigrún.

Að sögn Sigrúnar hefur Olweus-áætlunin skilað góðum árangri. Þeir skólar sem svo kjósi geti áfram keypt þjónustuna enda hafi þeir fjárhagslegt sjálfstæði til þess. „Því fjármagni sem veitt hefur verið miðlægt til Olweus-áætlunarinnar í grunnskólunum verður nú varið til að efla forvarnir gegn einelti á öllum starfsstöðvum nýs Skóla- og frístundasviðs með nýju verkefni sem verið er að skipuleggja.“- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×