Innlent

Kaupin breyta verðmati á ósnortnu víðerni

Árni páll Árnason
Árni páll Árnason
Fyrirhuguð kaup kínverska kaupsýslumannsins Huang Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum munu breyta verðmati á ósnortnu víðerni. Þetta segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.

„Þetta hefur þau ánægjulegu áhrif að það verður skyndilega einhvers virði að sökkva landi í sæ eða spilla ósnertri víðáttu á Íslandi með óafturkræfum hætti.“

Ráðherra segir það hafa verið ríkjandi vandamál í umhverfismati hingað til að erfitt hafi

reynst að sýna fram á það fjárhagslega hverju sé verið að fórna í framkvæmdum á víðerni landsins.

„Menn hafa getað farið um og spillt ósnortnu landi án þess að sýna fram á fjárhagslegar afleiðingar vegna þessa,“ segir hann og bætir við að fyrirætlanir Nubo muni breyta því verðmati. Landeigendur sanda, hóla og hrauna munu nú vita betur hvers konar verðmæti þeir séu með í höndunum.

„Breytt verðmat hjálpar okkur sem stendur ekki á sama um hvað verður um hin ósnortnu víðerni í landinu,“ útskýrir Árni Páll. „Og það er mjög til góðs.“

Innanríkisráðherra þarf nú að ákveða hvort veita beri Nubo undanþágu til að kaup hans á Grímsstöðum gangi eftir. Kaupsýslumaðurinn ætlar sér meðal annars að byggja lúxushótel og heilsulind á svæðinu, en Grímsstaðir eru ein stærsta jörð á Íslandi, um 300 ferkílómetrar að stærð, og standa fáar landareignir hærra yfir sjávarmáli.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×