Erlent

Grikkland ekki að kasta evrunni

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.
Grikkland er óaðskiljanlegur hluti af evrusvæðinu og önnur Evrópuríki munu hjálpa Grikkjum til að koma í veg fyrir að landið fari í greiðsluþrot. Þetta er niðurstaða símafundar leiðtoga Grikklands, Þýskalands og Frakklands í gær.

Verð á hlutabréfum hækkaði heldur í gær, en þau höfðu lækkað talsvert á síðustu dögum vegna ótta fjárfesta við greiðsluþrot Grikklands þrátt fyrir björgunaraðgerðir annarra ríkja á evrusvæðinu.

Talsmaður grískra stjórnvalda sagði eftir símafund leiðtoganna þriggja að gríska ríkisstjórnin ætlaði sér að standa við allar skuldbindingar landsins.

Talsmaður Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, ítrekaði eftir fundinn að Grikkland yrði að halda sig við áformaðan niðurskurð á ríkisútgjöldum þrátt fyrir óánægju grísks almennings. Hann sagði niðurskurðinn skilyrði fyrir frekari fjárhagsaðstoð sem önnur Evrópuríki hefðu lofað Grikklandi.

José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefur lagt til að ríkin á evrusvæðinu gefi sameiginlega út skuldabréf til að bregðast við skuldakreppunni.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×