Erlent

Sífellt meira geimrusl

Myndin er listræn túlkun á ástandinu í kringum Jörðina, en gefur nokkra hugmynd um hvað við er að glíma.nordicphotos/AFP
Myndin er listræn túlkun á ástandinu í kringum Jörðina, en gefur nokkra hugmynd um hvað við er að glíma.nordicphotos/AFP
Vísindamenn í Bandaríkjunum segja nauðsynlegt að setja alþjóðlegar reglur um hluti sem sendir eru út í geiminn, geimflaugar, gervihnetti og annað slíkt, sem svífur áfram umhverfis jörðina löngu eftir að allri notkun er hætt.

Ruslið í geimnum er orðið svo mikið að hætta stafar af. Bæði er hætta á því að eitthvað af því rekist á mönnuð geimför með hugsanlega alvarlegum afleiðingum fyrir geimfarana, og einnig er hætta á því að skemmdir verði á mikilvægum gervihnöttum, sem hvers kyns starfsemi á jörðu niðri reiðir sig á.

Frá þessu er skýrt á vefsíðum BBC og vitnað í nýja skýrslu frá rannsóknarráði Bandaríkjanna, National Research Council.

Nú er talið að um 22 þúsund hlutir, sem eru nægilega stórir til að hægt sé að fylgjast með þeim frá jörðu niðri, séu á ferðinni í kringum jörðina. Enginn hefur hins vegar tölu á minni hlutum, sem sumir hverjir hafa orðið til þegar stærri hlutir rekast á.

Fyrir tveimur árum rákust tveir gervihnettir saman úti í geimnum, sem varð til þess að þeir sundruðust. Árið 2007 gerðu Kínverjar auk þess tilraun með geimvarnarvopn og sprengdu eigin gervihnött.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×