Erlent

Óhollusta fjármagni heilbrigðiskerfið

Vinstri flokkarnir í Danmörku vilja hækka álögur á tóbak og aðra óhollustu til að bæta heilbrigðiskerfið. Þessi herramaður þarf að minnka við sig í reykingunum ef af hækkununum verður. NordicPhotos/AFP
Vinstri flokkarnir í Danmörku vilja hækka álögur á tóbak og aðra óhollustu til að bæta heilbrigðiskerfið. Þessi herramaður þarf að minnka við sig í reykingunum ef af hækkununum verður. NordicPhotos/AFP
Skattar og gjöld á óhollar neysluvörur munu hækka töluvert, komist Jafnaðarmenn og Sósíalíski þjóðarflokkurinn til valda í komandi kosningum í Danmörku.

Flokkarnir hafa tekið höndum saman um mörg sameiginleg baráttumál og í einni áætlun þeirra sem ber yfirskriftina „sanngjörn lausn“ er gert ráð fyrir því að fjármagna verkefni á heilbrigðissviði með því að hækka álagningu á sígarettur og óhollan mat.

Samkvæmt því mun jafngildi 220 íslenskra króna leggjast á hvern sígarettupakka, 22 krónur á hvern lítra af sykruðum gosdrykk, og tæpar 100 krónur á 200 gramma plötu af súkkulaði.

Auk þess munu gjöld aukast á feitt kjöt, rjóma og aðrar feitar mjólkurvörur, en með þessum aðgerðum er stefnt að því að afla um 86 milljarða íslenskra króna. Þar af skulu tæpir 70 milljarðar renna til bættrar þjónustu á sjúkrahúsum landsins.

Danskir reykingamenn greiða í dag að jafngildi 750 íslenskra króna fyrir pakkann. Í Noregi er verðið hins vegar miklum mun hærra, eða um 1.750 íslenskar.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×