Erlent

Nærri níutíu látist í fangelsi

Sýrlenska stjórnin hefur gripið til harkalegra aðgerða gegn mótmælendum. nordicphotos/AFP
Sýrlenska stjórnin hefur gripið til harkalegra aðgerða gegn mótmælendum. nordicphotos/AFP
Að minnsta kosti 88 manns hafa látið lífið í fangelsum í Sýrlandi síðustu fimm mánuði, eða frá því að mótmæli og uppreisn gegn Bashar Assad forseta hófust. Tíu hinna látnu voru á barnsaldri.

Þetta fullyrða alþjóðlegu mannréttindasamtökin Amnesty International, sem hafa safnað saman frásögnum fólks, meðal annars af pyntingum sem fangar eru beittir.

„Þessi mannslát í fangelsum eru að verða óheyrilega mörg og virðast vera framhald á þeirri sömu grimmdarlegu lítilsvirðingu fyrir mannslífum sem við sjáum daglega á götum Sýrlands,“ segir Neil Sammonds hjá Amnesty International.

Í nýrri skýrslu frá samtökunum um mannslát í fangelsum í Sýrlandi segir að ummerki á líkum hinna látnu sýni að sumir þeirra hafi mátt þola barsmíðar, svipuhögg, stungur og bruna.

Undanfarin ár hafa að meðaltali fimm manns látist árlega í fangelsum í Sýrlandi, að sögn samtakanna. Þessi gríðarlega fjölgun kemur heim og saman við það að handtökum hefur fjölgað mjög síðan uppreisnin hófst.

Samtökin segjast hafa upplýsingar um meira en 1.800 manns sem sagðir eru hafa beðið bana síðan uppreisnin hófst. Þúsundir að auki hafa verið handteknar.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×