Innlent

Breytir engu hvernig reiknað er

Reglugerð Seðlabankans um útreikning verðtryggðra lána er í fullu samræmi við lög samkvæmt bréfi Más Guðmundssonar seðlabankastjóra til umboðsmanns Alþingis.Fréttablaðið/gva
Reglugerð Seðlabankans um útreikning verðtryggðra lána er í fullu samræmi við lög samkvæmt bréfi Más Guðmundssonar seðlabankastjóra til umboðsmanns Alþingis.Fréttablaðið/gva
Reglur sem Seðlabanki Íslands hefur gefið út um hvernig standa skuli að útreikningum á verðtryggðum lánum eru í samræmi við lög, að því er fram kemur í bréfi bankans til umboðsmanns Alþingis.

Í bréfinu, sem undirritað er af Má Guðmundssyni seðlabankastjóra, er jafnframt bent á að engu breyti hvort verðtryggingu sé bætt við höfuðstól eða við afborganir af láninu.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa kvartað til umboðsmanns Alþingis vegna útreikninga á verðtryggðum lánum. Samtökin benda á að í lögum um verðtryggingu sé talað um að bæta verðtryggingu á greiðslur af lánum, en í reglugerð útgefinni af Seðlabankanum sé talað um að leggja verðtrygginguna við höfuðstólinn.

Samtökin hafa jafnframt haldið því fram að miklu muni fyrir lántakendur hvernig reiknað sé.

„Hvort sem farin er sú leið við framkvæmd verðtryggingar að verðbæta höfuðstól eða greiðslur verður efnisleg niðurstaða sú sama,“ segir í bréfi Seðlabankans.

Þar segir jafnframt að lög krefjist þess ekki að notað sé sama orðalag í reglugerðum og í lagagreinum leiði reglugerðir til efnislega sömu niðurstöðu og lögin boði. Því geti Seðlabankinn ekki séð að lögmætisregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×