Erlent

Þúsundir mótmæla í Damaskus

Forsetinn á bæn Assad Sýrlandsforseti tók þátt í morgunbænum í gær við upphaf lokahátíðar föstumánaðar múslima.
nordicphotos/AFP
Forsetinn á bæn Assad Sýrlandsforseti tók þátt í morgunbænum í gær við upphaf lokahátíðar föstumánaðar múslima. nordicphotos/AFP
Þúsundir manna héldu út á götur Damaskus, höfuðborgar Sýrlands, að loknum morgunbænum í gær, sem var fyrsti dagurinn í lokahátíð föstumánaðar múslima.

Mótmælendur krefjast þess að Bashar Assad forseti og stjórn hans segi af sér. Öryggissveitir hafa bæði í gær og undanfarna daga gengið fram af mikilli hörku gegn mótmælendum og meðal annars skotið beint á fólk með þeim afleiðingum að í gær létu að minnsta kosti sjö manns lífið.

„Þeir geta skotið og drepið eins mikið og þeir vilja, við munum ekki hætta að krefjast stjórnar-skipta,“ sagði mótmælandi í Daraa, héraði sunnan til í landinu þar sem mikill kraftur hefur verið í mótmælendum.

Uppreisnin gegn Assad hefur nú staðið yfir í fimm mánuði. Hún byrjaði hægt með hógværum kröfum um endurbætur á stjórnkerfi og mannréttindamálum í landinu í beinu framhaldi af mótmælabylgjunni sem farið hafði um lönd Norður-Afríku og arabaheimsins.

Sameinuðu þjóðirnar segja að aðgerðir stjórnarinnar hafi kostað meira en 2.200 manns lífið.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×