Innlent

Afar ósáttir við lausa samninga

Skipstjórnarmenn hjá Landhelgisgæslunni eru afar ósáttir við lausa samninga.fréttablaðið/vilhelm
Skipstjórnarmenn hjá Landhelgisgæslunni eru afar ósáttir við lausa samninga.fréttablaðið/vilhelm
Félagar í Félagi skipstjórnarmanna (FS) standa nú í kjaradeilum hjá ríkissáttasemjara. Félagsmenn sem starfa hjá Landhelgisgæslunni og Hafró hafa verið samningslausir frá 1. apríl 2009.

Ægir Steinn Sveinþórsson, forsvarsmaður samninganefndar FS hjá Landhelgisgæslunni, segir félagið fara fram á bindandi kjarasamninga sem feli vonandi í sér launahækkun.

„Við höfum rekið okkur á það, eins og lögreglumenn, að við höfum ekki verkfallsrétt,“ segir Ægir. „En í ljósi síðustu umræðna um yfirvofandi verkfall leikskólakennara, er hægt að spyrja sig hvort hefði verið samið við þá ef þeir hefðu ekki haft verkfallsvopnið.“ Fundir hafa verið haldnir reglulega hjá ríkissáttasemjara síðan í vor en Ægir segir að það hafi lítið þokast.

„Þetta er langur tími til að vera samningslaus,“ segir Ægir. „Það hafa verið nokkrir óformlegir fundir í sumar, en sökum sumarfría hafa þeir komið tiltölulega óundirbúnir til leiks frá fjármálaráðuneytinu.“ Samningafundur var haldinn hjá ríkissáttasemjara í gær en honum lauk án niðurstöðu. Ákveðið hefur verið að funda á ný í næstu viku.

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×