Erlent

Safnaði myndum af Condi Rice

Uppreisnarmenn sem náðu húsakynnum Gaddafís Líbíuleiðtoga á sitt vald á dögunum urðu heldur en ekki hissa þegar þeir fundu þar bók með fjölda ljósmynda af Condoleezu Rice, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna í stjórn George W. Bush.

Þessi fundur átti þó ekki að kona svo verulega á óvart þar sem Gaddafí hafði ósjaldan lýst yfir hrifningu sinni á Rice.

Meðal annars sagði hann í viðtali á Al-Jazeera sjónvarpsstöðinni árið 2007 að hann dáðist að leiðtogahæfileikum hennar.

„Leeza, Leeza, Leeza,“ sagði hann, en gælunafn hennar er í raun Condi. „Ég elska hana mikið, dáist að henni og er stoltur af henni því að hún er þeldökk kona af afrískum uppruna.“

Þegar þau hittust svo ári síðar hlóð hann gjöfum á Rice, meðal annars skartgripum.

Á meðan er enn barist á götum Trípólí og Gaddafí er í felum. Hann neitar að gefast upp og hvetur stuðningsmenn sína til að hvika hvergi og berjast áfram.

Uppreisnarmenn hafa nú beint sjónum sínum að heimaborg Gaddafís, Sirte, og eru að reyna að semja við stuðningsmenn leiðtogans fyrrverandi um friðsamlega uppgjöf. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×