Erlent

Hart barist í Trípólí

bab al-asisiýah Uppreisnarmaður skýtur á leyniskyttur Gaddafís við fyrrum aðsetur hans. Uppreisnarmennirnir náðu staðnum á sitt vald á þriðjudag en stuðningsmenn Gaddafís hafa barist við þá þar og á nokkrum öðrum stöðum í borginni. fréttablaðið/ap
bab al-asisiýah Uppreisnarmaður skýtur á leyniskyttur Gaddafís við fyrrum aðsetur hans. Uppreisnarmennirnir náðu staðnum á sitt vald á þriðjudag en stuðningsmenn Gaddafís hafa barist við þá þar og á nokkrum öðrum stöðum í borginni. fréttablaðið/ap
Harðir bardagar hafa geisað milli uppreisnarmanna og stuðningsmanna Gaddafís í Líbíu síðustu sólarhringa. Mannfall er talið vera mikið. Barist hefur verið í Bab al-Asisýah, aðsetri Gaddafís, sem uppreisnarmennirnir tóku yfir á þriðjudag. Einnig hafa átök átt sér stað víða í suður- og miðhluta borgarinnar.

Stuðningsmenn Muammars Gaddafí lokuðu veginum að flugvellinum í Trípólí í gær. Skotið var á þá sem reyndu að komast um veginn. Uppreisnarmennirnir segjast þó hafa yfirráð yfir sjálfumflugvellinum.

Þrátt fyrir að uppreisnarmennirnir hafi meirihluta borgarinnar á sínu valdi er stríðinu ekki lokið því enn eru margir stuðningsmenn Gaddafís, margir þeirra þrautþjálfaðir hermenn, tilbúnir að berjast fram í rauðan dauðann. Uppreisnarmennirnir tilkynntu í gær að ef einhver úr innri hring Gaddafís handsamaði eða dræpi hann myndi sá hinn sami hljóta friðhelgi. Þá segja þeir að líbískur athafnamaður lofi milljón pundum í verðlaun. Þetta er talin tilraun til að auka sundurlyndi meðal stuðningsmanna Gaddafís. „Stærstu verðlaunin eru friðhelgi, ekki peningar,“ sagði Ahmed Bani, talsmaðuruppreisnarmanna, í gær.

35 erlendum blaðamönnum hefur verið hleypt út af Rixox-hótelinu í Trípólí, þar sem þeim hafði verið haldið síðan um helgina. Hótelið er á svæði þar sem harðir bardagar geisa.

Götur borgarinnar eru að mestu leyti auðar og óbreyttir borgarar halda sig innan dyra. Uppreisnarmenn hafa þó komið upp varðstöðvum með nokkurra hundraða metra millibili.

Uppreisnarmennirnir hafa á undanförnum mánuðum skipað eigin ríkisstjórn í Benghasí, sem hefur verið á þeirra valdi nánast frá upphafi mótmæla. Nú ætla þeir að flytja til Trípólí.

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×