Innlent

Kostar bankann 25 milljarða

Steinþór Pálsson
Steinþór Pálsson
Tap Landsbankans vegna lána til sjávarútvegsfyrirtækja verður um 25 milljarðar króna verði frumvarp um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu að veruleika, að mati Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans.

Í umsögn bankans um frumvarpið, sem undirrituð er af Steinþóri, er gert ráð fyrir því að einhver fyrirtæki í greininni verði gjaldþrota. Þar segir að jafnvel þó að engin fyrirtæki fari í þrot muni bankinn tapa um 19,5 milljörðum.

Það er mat bankans að endurskoða þurfi frumvarp sjávarútvegsráðherra frá grunni þar sem það muni að óbreyttu skerða hagkvæmni í sjávarútveginum og rýra lífskjör í landinu.

Í umsögn bankans segir að verðmæti þeirra eigna sem sjávarútvegsfyrirtæki hafi lagt að að veði sem tryggingu fyrir lánum frá bankanum hafi að langstærstum hluta byggst á aflaheimildum, þó með óbeinum hætti sé. Frumvarpið kippi fótum undan þeim möguleika, og geri þar með fjármögnun sjávarútvegsfyrirtækja erfiðari og dýrari.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að útvegsmenn fái heimild til að nýta auðlindina til 15 ára, með möguleika á átta ára framlengingu. Sá tími er allt of stuttur og í engu samræmi við þá langtímafjármögnun sem sjávarútvegsfyrirtæki þurfa á að halda, segir í umsögn Landsbankans.

Áætlað tap bankans skýrist að mestu af því að bankinn gerir ekki ráð fyrir áframhaldandi tekjum að 15 árum liðnum. Það sé varúðarráðstöfun þar sem óvíst sé með öllu að fyrirtækin fái áframhaldandi heimildir til fiskveiða. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×